Sáttamiðlari er hlutlaus þriðji aðili og báðir aðilar í sambandinu eru skjólstæðingar hans. Markmið sáttamiðlunar er sáttasamningur sem er sanngjarn, réttlátur og ásættanlegur fyrir báða aðila og fjölskylduna í heild ef parið á börn. Á sameiginlegum sáttafundi er leitast við að sýna þörfum, tilfinningum og hugmyndum hvers og eins viðeigandi virðingu og allir fá jöfn tækifæri til að tjá skoðanir sýnar. Stundum er byrjað á einkaviðtölum til að átta sig á vandanum og skoða mögulegar lausnir á honum. Í sáttamiðlun er oft mikilvægt að fara yfir mál sem hafa valdið gremju og vanlíðan svo fólk sleppi taki á þeim atburðum og horfi fram á veginn. Sáttaferlið er bundið trúnaði og ekki er gert ráð fyrir að það taki langan tíma. Lögð er áhersla á að gera í sameiningu sanngjarnan samning í lok sáttafundar, helst skriflegan.
Ef fólk vill skilja: Helstu einkenni skilnaðar sáttamiðlunar eru:
- Farið yfir verklagsreglur varðandi trúnað, hvernig eigi að afla nauðsynlegra upplýsinga og hvernig sé best að nýta sér aðstoð lögfræðinga.
- Einkaviðtöl milli málsaðila og sáttamanns eru fyrirfram ákveðin af sáttamanni og hjónunum.
- Viðmið um sanngirni eru byggð á annað hvort lögum um skilnað eða sameiginlegum skilningi hjónanna á því sem talið er sanngjarnt.
- Bæði hjónin geta nýtt sér aðstoð ýmissa sérfræðinga t.d. lögfræðinga og sálfræðinga sem koma að lausn vandans sem ráðgjafar.
- Hjónin annast sjálf sinn málflutning nema að sátt sé um að t.d. lögfræðingur sé viðstaddur og að hann eigi að tala fyrir hönd síns skjólstæðings.
- Sáttamaður stjórnar sáttaferlinu og leiðbeinir hjónunum við að greina vandann, skerpir á aðalatriðum, aðstoðar þá við að eiga í uppbyggilegum samskiptum og bendir á nýja möguleika við lausn vandans.
- Eftir að hjónin hafa af kostgæfni kannað allar mögulegar lausnir á vandanum þá eru þau hvött til að taka sínar eigin ákvarðanir. Lagt er mikið upp úr skapandi hugsun við lausn vandans. Þegar hjónin hafa náð samkomulagi sem báðum aðilum finnst ásættanlegt þá skrifar sáttamiðlarinn sáttmála sem byggður er á samþykktum þeirra. Hjónin bera sáttmálann undir sína lögfræðinga eða sýslumann. Sýslumaður notar svo sáttmálann til að útbúa skjal sem slítur giftingunni og innleiðir sameiginlegar samþykktir þeirra.